Smásögusafnið „From a certain point of view“

Samvinnugrein, höfundar: Jóhannes Ragnar Ævarsson og Rósa Grímsdóttir.

Í tilefni af því að í ár eru liðin 40 ár frá því að fyrsta Star Wars myndin kom í kvikmyndahús, þá var gefið út smásögusafnið „From a Certain point of view“ (Frá vissu sjónarhorni) þann 3.október.

Eins og titilinn gefur til kynna, fáum við að sjá sögu A New Hope frá nýju sjónarhorni en safnið inniheldur 40 sögur af persónunum sem voru í bakgrunni. Persónum eins og X-Wing flugmönnunum sem hjálpuðu Luke að granda Helstirninu, eða Stormsveitarmennirnir sem gátu ekki fundið vélmennin sem þeir voru að leita að, jafnvel skrímslið í ruslaþjöppu Helstirnisins fær sína sögu.

En ólíkt myndinni fáum að skyggnast inn í hugarheim aukapersóna Star Wars og sjá þeirra hlið á málunum og hvað þær voru að gera á ólíklegustu tímum, meðal annars þegar þær voru „ekki á tjaldinu“.

Bókin svarar því ýmsum spurningum sem voru skildar eftir ósvaraðar í myndinni og ótal aðdáendakenningar hafa gerðar um. Þar á meðal fær maður að vita meira um baksögu Greedo, sem Han Solo skaut fyrst (við skulum ekkert ræða það frekar), Beu frænku Luke, Yoda og hver hann hélt að væri hinn útvaldi (það var hvorki Anakin né Luke að hans mati), af hverju Boba Fett var að hanga með Jabba Hut í Special Edition útgáfunni og samtal Qui-Gon við Obi-Wan í eftirlífinu. En þetta er bara smá upptalning af öllum þeim sögum sem eru í bókinni.

Sögurnar í bókinni eru skrifaðar af þekktum nöfnum eins og Pablo Hidalgo, Gary Whita, Meg Gabot, Pierce Brown og Wil Weaton.

Þetta er kjörin bók fyrir þá sem langar til þess að vita meira um hin ótrúlegustu smáatriði í Star Wars heiminum og þá sem langar til þess að sjá A New Hope í nýju ljósi.

Hér má sjá ítarlega gagnrýni um sögurnar í bókinni.

 

Han Solo fréttir: Tökum lokið og titill myndarinnar!

Þá er tökum loksins lokið á „tjaldabaksdrama“ myndinni Han Solo, sem þurfti að skipta um leikstjóra áður en tökum lauk. En leikstjóraskiptin hleyptu heldur betur óvæntu lífi í markaðsetningunni á myndinni þar sem Ron Howard hefur verið feiki duglegur að deila myndum af setti á twitter aðgangi sínum, án þess þó að gefa upp neina spilla heldur þvert á móti vekja forvitni með því sem hann hefur verið að setja inn.

Áhorfendur hafa því fengið að skyggnast inn að tjaldabaki og verið meira hluti af ferlinu en en venjan hefur verið með Lucasfilm myndirnar, þó að Rian Johnsons, leikstjóri nýjustu myndarinnar The Last Jedi, hafi líka gefið okkur smá innsýn í eftirvinnsluferlið, kannski til að veita Ron Howard smá samkeppni á twitter.

Loks hefur hulunni verið svipt af nafninu á nýjustu hliðarmyndinni, sem mun bera nafnið „Solo: A Star Wars story.“ Í sjálfu sér ekkert sem kemur á óvart með þann titill en það er gott að fá loksins staðfestingu á nafninu. Orðrómur segir að sýnishorn á myndinni sé væntanlegt fljótlega og verður líklegast sýnt á undan The Last Jedi, sem væntanleg er 15.desember en forsýnd hér á landi 13.desember.

Til að fagna því að tökum sé lokið á Han Solo myndinni, útbjó Ron Howard lítið myndband til þess að fagna því, auk þess sem hann tilkynnir nafnið á myndinni.

Vonandi að Ron Howard verði jafn duglegur að sýna klippiferlið og hann var í tökuferlinu, en myndin er enn væntanleg 25.maí 2018.