Rogue One: Catalyst

 

Bókin gerist áður en Jyn Erso, aðalpersóna Rogue One er fædd en hún fæðist í þriðja kafla bókarinnar og fylgist maður meðal annars með henni vaxa úr grasi. Hins vegar fjallar bókin að mestu leyti um föður hennar, Galen Erso og tilraunir Orson Krennic til að fá til að vinna við Death Star og hvers vegna í ósköpununum það var svona mikilvægt að fá Galen til liðs við þá.

Farið er í vináttu þeirra Galen og Orson, sem byggir þó mestu leyti að því að Orson ætlar að nota Galen sér til framdráttar, þar sem hann hugsar um fátt eitt en framann og er mikill tækifærisinni.

Sagan byrjar í miðju „Clonewars“ þannig að Orson er að vinna fyrir „The republic“ sem er ekki orðið að hinu ógnarstóra „The Empire,“  en hann setur það reyndar lítið fyrir sér þegar það breytist í lok stríðsins (um miðbik bókarinnar), þar sem í raun og veru er hann með sömu vinnuveitendurnar. Þetta heitir bara annað.

Auk þess fær maður mikið að kynnast móður Jyn, Lyru Erso sem stendur þétt við bakið á eiginmanni sínum en er auk þess, eins og flest kvenpersónur Star Wars, kvenskörungur eins og við þekkjum úr Íslendingasögunum.

Bókin er skemmtileg en pínu hæg, sérstaklega þar sem farið er rosalega djúpt í hvernig Dauðastyrnið er gert en engu að síður skemmtileg lesning. Litla Jyn er svo alger krúttsprengja en hún fær meira segja sjónarhorn í lok bókarinnar þegar þau eru að flýja á staðinn þar sem Krennic finnur þau í byrjun Rogue One.