Han Solo fréttir: Tökum lokið og titill myndarinnar!

Þá er tökum loksins lokið á “tjaldabaksdrama” myndinni Han Solo, sem þurfti að skipta um leikstjóra áður en tökum lauk. En leikstjóraskiptin hleyptu heldur betur óvæntu lífi í markaðsetningunni á myndinni þar sem Ron Howard hefur verið feiki duglegur að deila myndum af setti á twitter aðgangi sínum, án þess þó að gefa upp neina spilla heldur þvert á móti vekja forvitni með því sem hann hefur verið að setja inn.

Áhorfendur hafa því fengið að skyggnast inn að tjaldabaki og verið meira hluti af ferlinu en en venjan hefur verið með Lucasfilm myndirnar, þó að Rian Johnsons, leikstjóri nýjustu myndarinnar The Last Jedi, hafi líka gefið okkur smá innsýn í eftirvinnsluferlið, kannski til að veita Ron Howard smá samkeppni á twitter.

Loks hefur hulunni verið svipt af nafninu á nýjustu hliðarmyndinni, sem mun bera nafnið “Solo: A Star Wars story.” Í sjálfu sér ekkert sem kemur á óvart með þann titill en það er gott að fá loksins staðfestingu á nafninu. Orðrómur segir að sýnishorn á myndinni sé væntanlegt fljótlega og verður líklegast sýnt á undan The Last Jedi, sem væntanleg er 15.desember en forsýnd hér á landi 13.desember.

Til að fagna því að tökum sé lokið á Han Solo myndinni, útbjó Ron Howard lítið myndband til þess að fagna því, auk þess sem hann tilkynnir nafnið á myndinni.

Vonandi að Ron Howard verði jafn duglegur að sýna klippiferlið og hann var í tökuferlinu, en myndin er enn væntanleg 25.maí 2018.